Fróðleikur

Rafsegulsvið

Ef einhver hefði haldið því fram fyrir fimmtán árum síðan að hann hefði ofnæmi fyrir rafsegulsviði, þá hefði sá hinn sami verið álitinn furðulegur í meira lagi. Ekki nóg með það heldur hefði enginn læknir tekið hann alvarlega og í skásta falli vísað honum á geðlækni. (það er reyndar gert enn) Það var í kringum nítján hundruð og áttatíu sem fyrst fór að bera á kvörtunum einstaklinga sem unnu við tölvur eða tölvuskerma.

Sumir, sem þjást af þessum sjúkdómi, hafa orðið að segja upp vinnu jafnvel selja íbúðina sína og flytja í rafmagnslaust umhverfi. Sem betur fer eru tímarnir að breytast. Vísbendingar hafa borist um að rafsegulóþol sé í raun staðreynd. Ég hef undan farin ár fylgst með þessum málum og þeirri umræðu sem hefur átt sér stað erlendis. Það er ljóst að umræðan um rafmengun tekur á sig hinar óliklegustu myndir og eru það einkum tveir hópar sem deila harðast.

Annarsvegar eru áhugamenn um rafmengun (í þeim hóp eru m.a. sjúklingar sem telja sig fórnardýr rafmengunar í einhverri mynd, ýmsir sérfræðingar og vísindamenn). Hinsvegar eru vantrúaðir læknar og vísindamenn, hagsmunahópar eins og t.d. raforkuframleiðendur, dreifingaraðilar raforku, og seljendur raforku og framleiðendur ýmissa rafmagnstækja. Mest er deilt um hvort rafmengun geti komið af stað eða ýtt undir krabbamein en faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á samhengi milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nærveru við háspennulínur. Það væri efni í margar bækur að ætla að skrifa um allar þær rannsóknir og kenningar sem komið hafa fram um þessi mál og því ætla ég að láta duga að fjalla hér um rafsegulóþol.

Óþol.
Rafsegulóþol virðist í stuttu máli óþol fyrir rafsviði og rafsegulsviði. Á byrjunarstigi lýsir óþolið sér sem sviði í húð, sérstaklega andliti hálsi og handleggjum, og líkist slæmum sólbruna. Stundum myndast roðablettir. Jafnframt fer fólk að finna fyrir stingjum eins og litlum nálum sé stungið í húðina hér og þar, ekki ósvipað náladofa. Þurrkur í húð, hálsi og munni, sprungur á vörum, pirringu í augum og þorsti.

Þegar rafsegulóþol er komið á alvarlegt stig getur húðin bólgnað upp og rauðir flekkir myndast, hjartsláttartruflanir koma fram, truflun á öndun, mikil þreytutilfinning höfuðverkur, liðverkir, öll einbeiting fer lönd og leið samfara því að skammtímaminnið fer að svíkja. Þessi upptalning einkenna er tekin úr tímariti rafsegulóþolssjúklinga í Svíþjóð “Föreningen för El- och Bildskärmsskadade³ Það er athyglisvert að einstaklingar sem haldnir eru rafsegulóþoli hafa margir einkenni kvikasilfurseitrunnar þ.e. frá tannfyllingarefninu amalgam. Það er vitað að mikil viðvera í rafsegulsviði flýtir útfellingu kvikasilfurs úr tannfyllingum.

Sé svo verði áhrif frá rafmagni mjög ýkt og einkennin alvarlegri. Það eru margir sem álita að samspil þessara tveggja þátta, þ.e. kvikasilfurseitrunnar og rafsegulsviðs sé alvarlegt vandamál. Þeir telja að þar sem málmur eins og kvikasilfur, sem safnast saman í vefjum og kyrtlum og svarar rafsegulsviði sterkar en frumuvefir, geti myndast innbyrðis áreiti. Við þessu bregst ónæmiskerfið ókvæða, með alvarlegum afleiðingum. Afleiðingarnar virðast svipaðar í flestum tilfellum.

Í fyrstu kemur fram vanlíðan þegar unnið er við skjái síðar byrja hjartsláttartruflanir að gera vart við sig í tíma og ótíma, svimaköst, liðverkir, ósjálfráður skjálfti, gríðarlegur þorsti ásamt ljósóþoli og mikilli þreytu. Allir þeir sem þjást af þessu eiga það sameiginlegt að hafa gengið milli lækna án nokkurs árangurs og hefur þrautalendingin verið að senda þetta fólk til geðlækna. Fyrir þetta fólk er erfitt að finna aðstoð og skilning og því stendur það oft eitt á báti.

Rafsegulóþol er ekki óþekkt hér á landi. Það eru mörg tilfelli þar sem fólk finnur fyrir óþægindum við viðveru framan við tölvuskjái. Ég hélt fyrirlestur um rafsegulóþol og rafmengun fyrir nokkru. Þar kom á tal við mig kona og sagði að hún hefði fyrir nokkrum árum orðið að hætta vinnu vegna mikillar vanlíðanar í vinnunni en hún vann við tölvu. Þegar hún mætti til vinnu á morgnana leið henni þokkalega en þegar leið á morgunin fór hún að finna fyrir sviða í húð eins og hún væri illa sólbrunnin. Þetta ágerðist svo að hún varð viðþolslaus. Það sem henni þótti einkennilegast var að þegar hún leit í spegil var húðin eðlileg en ekki rauð eins og búast mætti við. Þegar þessi kona hætti að vinna lagaðist sviðin en hún sagðist alltaf finna hann þegar hún settist of nálægt sjónvarpi eða tölvu. Fræðimenn hér á landi, sem og erlendis virðast flesti hallast að því að þessi sjúkdómur sé uppspuni einn. En það hafa nokkuð margar rannsóknir verið gerðar á þessu fyrirbæri og langar mig að tíunda hér nokkrar.

Rannsóknir.
Árið 1992 var birt í tímaritinu “Journal of Bioelectricity³ niðurstaða rannsókna “Environmental Health Center³ í Dallas sem stjórnað var af Dr. Rea. Tilraunir sem gerðar voru skiptust í nokkra hluta. Í fyrsta stigi var sett upp aðstaða þar sem sem minnst möguleg kemísk efni gátu losnað út í umhverfið og jafnframt skermuð raffræðilega til að hægt væri að hafa fulla stjórn á rafsviði í herberginu. Síðan voru gerðar tilraunir á 100 einstaklingum með rafsegulóþol.

Til að kanna viðkvænmi þeirra var sett í gang röð af rafsegulsviðum á tíðnisviðinu 0 – 5 MHz ásamt 5 fölsuðum þar sem ekkert rafsegulsvið var. Af þessum 100 einstaklingum sem prófðir voru fundust 25 sem urðu eingöngu fyrir áhrifum að raunverulegu rafsegulsviði en ekki fölsuðu. Tilraunum með þessa 25 var síðan haldið áfram og nú voru þeir prófaðir ásamt 25 einstaklingum sem ekki höfðu þjáðst af neinu rafsegulóþoli. Út úr þeirri rannsókn kom sú niðurstaða að enginn þeirra heilbrigðu fann nokkurn mun á sér hvort sem rafsegulsvið var til staðar eða ekki, en 16 af hinum sjúku fundu ofnæmis einkenni þegar rafsegulsvið var til staðar en aftur engin einkenni þegar rafseguslviðið var falsað. Einkenni sjúkdómsins var greinanlegt m.a. á breytingum á taugakerfi. Síðari rannsóknir sýndu fram á að þessir 16 sem eftir voru sýndu ávallt 100% svörun við rafsegulsviði en enginn ef ekkert rafsegulsviðr var til staðar.

Viðamikilli könnun var gerð í Svíþjóð þar sem voru rannsakaðir 809 einstaklingar sem höfðu einkenni frá tölvuskermum. Í sérvöldum hóp 47 einstaklinga var farið dýpra í rannsóknir m.a. með nákvæmu eftirliti fyrir og eftir vinnu. Allir unnu minnst 20 tíma á viku fyrir framan tölvuskjá og voru 19 af þessum með húðvandamál. Þeir sem voru með einkenni í húð sýndu að framleiðsla (stress) hormóna “prolactin³ (mjólkurmyndunarvaki, hormón úr framhluta heiladinguls sem örvar mjólkurmyndun) og “thyroxine³ (skjaldkyrtilshormón, inniheldur joð og örvar frumuskipti) jukust. Jafnframt sýndi sig að þessi hópur hafð meira af vinnutengdum augnvandamálum, kláða og andleg streita hjá þeim var meiri en eðlilegt gat talist.

Á ráðstefnu sem haldin var nýlega í Kaupmannahöfn kom fram að húðsjúkdómafræðingar þar hafa skilgreint “skjá húðbólgu³ sem vandamál varðandi vinnu við tölvuskerma. Einkennin koma fram í húð og slímhúð og lýsa sér sem kláði, sviði, verkir, hitatilfinning, roði á húð, og húðþykkildi koma fram eftir viðveru fyrir framan skjá. Sumir hafa jafnframt einkenni hjartsláttatruflana og truflana á miðtaugakerfi. Johansson Hilleges í taugadeild Karoliniska Institut hefur komist að því að taugagriplur verða fyrir áhrifum af einungis 60 min. viðveru við skjá í 50 cm fjarðlægð. Áhugaverð voru áhrif á “mast³ frumur (frumutegund í bandvef sem myndar histamín við skemmdir) í sumum sjúklinga. Johansson sagði að “miðað við undangengnar rannsóknir er greinilegt að rafsegulsvið hefur meiriháttar líffræðileg áhrif á fólk sem þjáist af rafsegulóþoli³.

Hver er ofnæmisvaldurinn?
Þar sem rafsegulsvið og rafsvið virðast eiga bæði sinn þátt í að valda óþoli er ljóst að ofnæmisvaldurinn getur leynst víða. Rannsóknir hafa beinst að tölvuskjám en ef styrkleiki rafsviðs og rafsegulsviðs er borinn saman við önnur tæki er augljóst að skjáirnir eru ekki verstir. Þó er vert að hafa það í huga að tíðnisvið tölvu og sjónvarpsskjáa eru mjög mörg og ástæðan getur líka verið sú að þar vinnur fólk tímunum saman án þess að komast frá. Einnig er vert að geta þess að framan við tölvuskjái myndast jákvæðar jónir. Vitað er að jónajafnvægi andrúmslóftsins er mjög mikilvægt fyrir heilsu og vellíðan fólks og dýra.

Meðalfjöldi jákvæðra og neikvæðra jóna þarf að vera svipaður. Ef fjöldi plús jóna verður mikið hærri en mínus jóna geta komið fram ýmsir kvillar sérstaklega í húð og öndunarvegi. Rannsóknir sem voru gerðar í Ísrael í kring um 1960 sýndi fram á að langtíma áhrif af viðveru í plús jónuðu lofti gat orsakað ýmsa vanlíðan eins og t.d. þunglyndi, streytu, hjartsláttartruflanir, exem, migreni og fl. Rannsóknir hafa sýnt að hormónið serotonin eykst við viðveru í plús jónuðu lofti. Menn hafa misjafna getu til að brjóta niður of mikið serotonin í blóðinu og getan getur minnkað við langtíma áreiti. Því er freistandi að leggja fram þá tilgátu að tölvuskjáir og sjónvörp, sem framleiða töluvert magn plús jóna, ásamt því að skrifstofur og vistarverur eru oft illa loftræstar (eða loftið búið að ferðast langar leiðir um loftræstistokka sem eyða mínus jónum úr andrúmsloftinu) geti orsakað, eftir vissan tíma, truflun á serotonin framleiðslu heilans.

Rannsóknir sömu aðila sýndu að við viðveru í mínus hlöðnu lofti minnkaði serotonin í blóðinu. Þar sem hormónin serotonin og melatonin koma bæði við sögu í rannsóknum á rafsegulsviði þá er freistandi að ætla að jónunaráhrif skjáa geti skipt miklu máli. Þau önnur tæki sem geta gefið frá sér rafsegul eða rafsvið eru t.d. reiknivélar, ritvélar, ljósritunarvélar, prentarar, borðlampar, raflögn í plaststokkum, halogen lýsing, (aðalega rafsegulsvið) og raflagnir og svo mætti lengi telja. Á heimilum er helst að nefna vatnsrúm, sjónvarpstæki, örbylgjuofna, eldavélar, stereotæki, útvarpsvekjaraklukkur, halogen ljós, raflagnir í tréveggjum, pípulögn (flökkustraumar), steypustyrktarjárn í steinveggjum (flökkustraumar). (Hugtakið flökkustraumur á við um rafstrauma, svokallaða núllstrauma sem fara eftir jarðvegi, pípulögn eða járnabindingu húsa frekar en að fara eftir heimtauginni til spennistöðvar. Þessir straumar geta myndað gríðarlega mikið rafsegulsvið inni í íbúðum og á vinnustöðum.) Það er rétt að geta þess að nokkrar mælingar hafa verið gerðar á jónajafnvægi í kring um háspennulínur í kyrru lofti og sýndu þær alls engar jónir hvorki mínus né plús jónir. Það mætti því ætla að sterkt rafsvið geti truflað jónajafnvægi andrúmsloftsins og mega vistarverur fólks illa við slíku.

Forvarnir.
Ef þú lesandi góður finnur fyrir einhverjum einkennum sem hafa verið talin upp hér að ofan væri ráðlegt fyrir þig að byrja á nokkrum einföldum aðgerðum. Í fyrsta lagi er að athuga hvort tölva sem unnið er við sé ekki örugglega jarðtengd. Ef rafmagnsjörð er ekki til staðar þarf að bæta úr því hið bráðasta því ójarðtengt tölva hefur margfalt meira rafsvið en jarðtengd. Heimilið er einnig mikilvægt og sérstaklega svefnherbergið. Því er ráðlegt að hafa það sem reglu að taka rafmagnstæki úr sambandi yfir nætur. Það á við alla, því góður nætursvefn er forsenda góðrar líðan.

Rannsóknir hafa nefnilega sýnt fram á að rafsegulsvið geti haft áhrif á melatonin framleiðslu heilans en melatonin er hormón sem heilaköngullinn frameliðir og stýrir líkamsklukkuni, þ.e. stjórnar svefn og vöku Það er jafnframt eina efnið í líkamanum sem vinnur gegn krabbameini. Útvarpsvekjara væri best að losna alveg við og ef sofið er í rafmagnsrúmi  mæli ég eindregið með því að það sé aldrei haft í sambandi á nóttu. Það hefur reynist nóg að hafa rúmin í sambandi að degi til og taka síðan úr sambandi þegar farið er í háttinn. Rafsvið frá slíku rúmi er gífurlega mikið og rafsegulsvið allnokkuð. Fleira þarf að athuga eins og t.d. efni í milliveggjum.

Ef milliveggir eru úr spónaplötum er vísast að rafsvið sé mikið inni í herberginu. Lausnin við því er að draga nýtt skermað raflagnaefni. Einnig er hægt að fá sérstaka rofa sem rjúfa alla spennu inn á herbergið ef enginn straumur rennur. Á daginn þyrfti viðkvæmur einstaklingur að vara sig á raftækjum og standa ekki lengi nálægt tækjum eins og sjónvörpum, eldavélum, örbylgjuofnum og jafnvel lömpum. Meira að segja getur mikið rafsegulsvið verið á gangstéttum vegna niðurgrafina lagna. Það er margt sem getur orsakað rafsvið og rafsegulsvið og er útilokað að telja upp alla þætti hér. Oft hef ég rekist á mikið rafsvið frá t.d. ísskápum sem eiga þó að vera kyrfilega jarðtengdir, en það vill bregðast. Jarðtengingar í dósum geta verið lélegar og jafnvel svo að mörg herbergi hafi óvirkt jarðsamband. Það er því varhugavert að taka því sem gefnu að allt sé í lagi þó það virðist vera og þá er rétt að vara við fjöltengjum sem ekki hafa jarðsamband. Hönnun húsa getur einnig ýtt undir hættur af þessum toga.

Ég kom í hús um daginn þar sem húsbóndinn á heimilinu hafði þráláta verki í fótum. Við mælingu kom í ljós að mikið rafsegulsvið kom frá gólfinu í íbúðinni. Við athugun sýndi sig að jarðsamband lá í golfplötunni (lofti neðri hæðar) og ef einhver íbúi í blokkinni t.d. kveikti á eldavél þá margfaldaðist segulsviðið. Styrkleiki sviðsins var slíkur að uppi í hjónarúmi var styrkleikinn fimmfaldur á við viðurkennd hámarks rafsegulsviðsmörk frá tölvuskjá. Menn komu frá Rafmagnsveitunni og eftir mælingar var það gefið út að þetta væri eðlilegt. Við hönnun hússins hefði þurft að hugsa fyrir því að slík leiðsla lægi ekki nálægt íbúum. Það er semsé margt að varast. Áhrif frá rafmagni eru ekki áþreifanleg né sjáanleg. Það orsakar það að einstaklingar geta illa forðast viðveru í rafsegulsviði. Rafsegulsvið smýgur nánast allt efni og eru þykkir múrveggir engin vörn. En meðan þekking á áhrifum rafmagns er lítil er best að hafa varann á, sérstaklega þar sem sofið er.

Valdemar Gísli Valdemarsson.
Höfundur er rafeindavirkjameistari
og áhugamaður um umhverfismál.